Skip to Content

HVERNIG ÖRLAGAGÁTAN VARÐ TIL

 

Sumarið 1926 kynntist ég talsvert náið skáldinu Stephani G. Stephanssyni. Féll allvel á með okkur, og meðal annars sem okkur fór á milli var það, að ég bað hann að yrkja mér oratóríu-texta. Áskyldi ég mér þó að mega fella úr og fitja inn í eftir vild og ástæðum, svo og víxla orðum og hendingum hvar sem mér sýndist. Gaf Stephan það fúslega eftir og ítrekaði síðar, er hann sendi mér textann. Notaði ég mér það leyfi eftir ástæðum bæði hvað úrfelingar, innskot og víxlingar snerti.
Vilji svo til að þessi oratóríó verði prentuð um mína daga er vísast að ég geri grein fyrir öllum þeim breytingum smáum sem stórum, en annars má finna þær við samanburð á söngtextans og Þiðranda-kveðu Stephans, því að svo nefnir hann ljóðaflokinn, en ég gaf söngverkinu nafn.. Um þessar mundir var ég búsettur í Winnipeg, en þá á förum til Lundúna, og þangað sendi Stephan mér ljóðaflokkinn í febrúar 1927.
Tók ég þegar að velta fyrir mér textanum og gerði uppkast að fyrri þætti tónverksins sumarið eftir, í skólafríinu. Vorið 1928 hvarf ég aftur til Kanada og var þar á ferðalagi fram undir haust, en settist síðan að í Winnipeg. Áður en ég fór frá Lundúnum hafði ég hreinskrifað rúmar 50 blasíður af uppkastinu með nokkrum breytingum, og tók nú þar til,  sem frá var horfið og starfaði að verkinu fram yfir áramót. Hafði ég þá lokið við og hreinskirfað 20 númer og meðal annars umsamið nr 6, 8, og 9, sem voru allt öðru vísi í uppkastinu. En þá fór allt í strand af ýmsum ástæðum, m.a. þeirri: að þá um stund varð ég að sökkva mér niður í hátíðar-kantötuna  “ Íslands þúsund ár”. Gat ég svo ekki lifað mig nægilega inní verkið þaðan af þar til haustið 1932, að ég gerði á því loka snerruna og lauk því 6. janúar 1933. Má því segja að ég hefði það á prjónunum í hálft sjötta ár. Er og textinn all víða fremur óþjáll til tónsetningar, svo að óhjákvæmilegt var að liðka hann til samræmis við oratóríu formið í þeirri framsetningu, sem ég lagði til grundvallar að tónverkinu, sem slíku,  og nokkuð má ráða í af meðfylgjandi skýringu.
Því miður veittist afar erfitt að svo komnu máli að fá orta góða oratóriu texta, sem mun stafa af því að skáld vor eru með öllu ókunnug oratóríu forminu. En það er þó sýnu listrænna og dulúðugra en operu formið, fyrir þá sem skylja það til hlýtar.

Akureyri 7. nóvember 1950.

Björgvin Guðmundsson.



Drupal vefsíða: Emstrur