Uppkast frá vetrinum 1914-15 en hreinskrifað með talsverðum breytingum 1919. Mikið notað sem stólvers í Sambandskirkjunni í Winnipeg hin næstu ár og sungið af Kirkjukór Akureyrar á aldarafmæli séra Valdimars Briem 1. feb. 1948 og oftar við hátíðleg tækifæri.
Dúett og kór með sóló fylgirödd (obligato) og undirspili.
Sópran I og II dúett
Nú enn er komin aftanstund
og allt er kyrrt og hljótt:
Oss aftankyrrðin boðar blund
og býður góða nótt.
En svo vér getum sofnað rótt
þarf sálin ró og frið.
Hver getur fengið góða nótt
sinn Guð ei sáttur við?
Sópran sóló (obligato) og kór
Í kvöld oss hæga hvílu bú
og hollan gef oss frið.
Í nótt og allar nætur þú
oss nauðum forða við.
Í kvöld oss alla náða nú;
í nótt oss vertu hlíf.
Með nýjum degi náð veit þú
oss nýtt að byrja líf.
Sópran yfirrödd
Gef oss Drottinn góðar nætur.
Góða nótt. Góða nótt.
Kór
Á hinsta kvöldi hjá oss ver/ (Gef oss Drottinn góðar nætur.)
og heim oss leið til þín,
þar fagur dagur ætíð er/ (Gef oss Drottinn góðar nætur.)
og eilíf sólin skín.
Gef oss drottinn góðar nætur. / (Góða nótt ... góða nótt.)