Skip to Content

BANKAÐ AF HÆVERSKU

Hugleiðingar Atla Ingólfssonar í tilefni af útkomu geisladisksins Hljómblik árið 2004.

Afi minn stígur harmóníumið og dæturnar syngja fullum hálsi.  Eftir einhverja stund er eins og skarkið í fetlunum ágerist dálítið, eða eru þær farnar að slá taktinn með fótunum?  Nei, það berst úr forstofunni; var víst feimnislegt bank að dyrum.  Hafði gesturinn beðið lengi úti án þess að gera vart við sig?  Líklega; bæði af hæversku og ást á söngnum.  „Það er Björgvin“ segja þær.  
    Góðleg og nærsýn mannvera gengur inn í þessa stofu þar sem músík er til húsa og líka réttlæti að því er gestinum finnst. Það metur hann mikils.
    „Það er svolítið í kantötunni sem þú átt að syngja ein“ segir hann við móður mína.  Hún þorir ekki að skorast undan.  „Þarf karlinn nú ennþá að vera að breyta þessu, og kórinn löngu byrjaður að æfa“, hugsar hún kannski, of ung til að skilja leitina og þolinmæðina sem einkenna sköpun hans.  Þolinmæði:  Raunar bar við að tónskáldið í honum gengi svo mjög á þann sjóð að minna var eftir fyrir kórstjórann.  En þá tók réttlætið í taumana: Hann bað kórinn afsökunar – „ég missti mig víst aðeins“ – og var aftur öðlingur.  Eins og nú, yfir kaffinu innan um þetta söngelska fólk.
    Einhvern veginn finnst mér ég hafa verið þarna í stofunni á Brekkugötu og setið til móts við Björgvin Guðmundsson.  Og ætli ég hafi ekki fitjað upp á ýmsu sem mér fannst við eiga sameiginlegt.  Við höfum sjálfsagt talað lengi um Händel sem var báðum eins og opinberun á unga aldri.  Svo rifjum við upp ferðalag til framandi lands í leit að meiri kunnáttu.  Já einmitt; þótt áhrif tónlistarinnar séu galdur verður seiðurinn ekki magnaður nema með kunnáttu.  Og nú fer ég af stað svo hann kemst ekki að.  Fer úr kunnáttu yfir í réttlæti.  Að kannski megi lýsa tónlist hans sem leit að réttlæti í tónum.
    Sennilega má skipta tónskáldum í tvo hópa: Annars vegar eru menn skyndilegrar hugljómunar, hins lóðrétta innblásturs.  Hins vegar þeir sem þurfa að leita að hinum rétta hljómi, þar sem innblásturinn er eins og láréttur…lágróma en langvarandi (Björgvin horfir spyrjandi á afa).  Í fyrri flokknum væru þá til dæmis Sigvaldi Kaldalóns, Schubert, líklega Mozart.  
- „Í þeim síðari erum við, Björgvin, og – þú afsakar – Beethoven.“
Ófæddi strákurinn heldur áfram: „Hinir fyrri skapa það sem er gott af því það er fallegt, hinir síðari það sem er fallegt af því það er gott.  Hvorir tveggju eru mannsandanum jafn nauðsynlegir.  Er ekki hlálegt að margir telja sig þurfa að gera upp á milli flokkanna og halda upp á þann sem „nær beint til hjartans“?  Og halda ekki sumir að sálarlíf hinna sé kaldara?  Þó er vandfundinn næmari maður en þú; og það hefur síst auðveldað þér lífið.“
    „En þessi leit að réttlæti í tónum: Haldi menn að hún sé þurr og fræðileg skjátlast þeim.  Réttlætið er ekki einungis fjarlæg hugsýn heldur getur það orðið næstum áþreifanlegt.  Og hljómur þess er sætur og sannur…“
    Nei, ég er víst að tala við sjálfan mig, með nýfrágenginn geisladisk í tækinu: Lög Björgvins, sum í upprunalegri mynd, sum í nýjum búningi (sem þau bera vel eins og öll tónlist sem er vel saman sett).  Ég held ég viti hvað er mikil vinna á bak við þessar smíðar sem oft virðast svo áreynslulausar og eðlilegar.  Ég held ég skilji hvert samband þeirra er við líf og trú þess sem þær vann.
Og nú er aftur eins og sé bankað.  Hæverskur gestur sem hefur beðið fulllengi úti.  Ég er stoltur af að fá að opna.


Atli Ingólfsson


Drupal vefsíða: Emstrur